Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
Að bregðast við
23.10.2016 | 16:50
Að bregðast við aðstæðum er eitthvað sem ég hef verið að hugleiða undanfarið. Stundum koma upp aðstæður þar sem allt virðist bila eða fer ekki á þann veg sem við ætluðum því. Að þá er það hugarfarið sem skiptir töluverðu máli.
Tökum dæmi: Ég vakna þreyttur, er viðkvæmur fyrir áreiti og lítið þarf til að hugsanirnar fari á þann veg að allt er ómögulegt, eða fíflunum fjölgar í kringum mig. Hver er þá mín ábygð í þessu, fyrir utan að passa betur upp á svefninn ? Hún er jú að bregðast við aðstæðum og snúa þeim til betri vegar. Það sem mér hefur lærst, er að hugarfar mitt er á minni ábyrgð. Því er það valkostur minn að bregðast við þessum hugsunum og snúa þeim til betri vegar.
Um leið og ég sætti mig við það, að allt er ekki eins og ég vil hafa það. Að þá losnar hugur minn undan neikvæðni og dæmandi hugarfari.Ég get gert það besta úr deginum eins og mér er unnt, hverju sinni. Þá kemur æðruleysisbænin þar inn í og hjálpar til, Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Fyrsta sem ég sé í " Æðruleysisbæninni" er það sem ég nefndi fyrst, að sætta mig mínar eigin takmkarkanir, ég er ekki Guð, ég get ekki stjórnað því sem gerist í kringum mig, ég get ekki stjórnað því hvernig aðrir eru. Hvað þau segja eða gera. Ég get ekki stjórnað því að allt fari á þann veg sem mig langar til að það fari.
Kjark til að breyta því sem ég get breytt, er að þyggja styrk frá Guði og taka leiðsögn frá honum, til að breyta rétt. Eitt af því sem reynist okkur oft erfit er að taka leiðsögn. Því við erum oft gjörn á því að vilja fara okkar eigin leiðir. Mín eigin leið í lífinu leiddi mig í þrot, og það oftar enn einu sinni. Þess vegna þarfnast ég kjarks til að breyta rétt og treysta því sem Guð segir að sé rétt. Traust er eitthvað sem er áunnið í mínum huga. Ég treysti ekki hverjum sem er, og þarf ekki að gera það. En það er samt alltaf á mínu valdi að taka ákvörðun um að treysta fólki, með það í huga að fólk er mannlegt, og ég get ekki haft þá kröfu á þeim að þeir þurfi að vera fullkomnir. Hins vegar hefur traust mitt til Guðs vaxið stöðuglega, ég þarf ekki að efast neitt, því reynsla mín sínir mér, að hann bregst ekki, hefur alldrei brugðist og mun alldrei bregðast. Það er mín upplifun og skilningur sem ég hef á Guði. Hann er traustins verður og sá eini sem er þess verður að hafa 100% traust hjá mér.
Að öðlast vit til að greina á milli þess sem ég vel, kemur ekki á einum degi. Ég rek mig á og dett, en hef alltaf þann valkost að standa aftur upp og halda áfram. Það er það sem gerir okkur að sigurvegurum. Að gefast ekki upp og reyna aftur. Þegar ég hætti að drekka og dópa fyrir tæpum 17 árum síðan, að þá hélt ég að ég gæti í mesta lagi verið edrú í hálft ár. En gangan með Guði hefur kennt mér og sýnt mér annað. Að þetta er hægt einn dag í einu. Það að hafa náð löngum edrútíma, gerir mig ekki betri en þá sem strögla við edrúgönguna. Við erum öll jöfn, og eina sem skiptir máli, hvað þetta varðar, er að ég er edrú í dag. Það skiptir máli hvað ég er að gera með líf mitt og hvernig bæði líkamlega og andlega ástand mitt er hverju sinni.
Vörn mín gegn fyrsta glasinu er Guð. Hann tók löngun í breytt ástand frá mér og hefur veitt mér frelsi til að vera edrú einn dag í einu. Þó svo að langt sé um liðið síðan ég hætti drykkju, að þá er ég ekki komin með þetta og get sest í helgan stein við að vinna í sjálfum mér. Það sem hefur reynst mér best í gegnum öll þessi ár, er að eiga vitundar samband við Guð,samkvæmt mínum skilningi á honum. Bestu tímabil mín eru þau, þegar ég er að hjálpa öðrum án þess að ætlast til þess að fá eitthvað til baka. Það sem gerist hjá mér, þegar ég gef af mér, er að ég öðlast meiri kraft til að framkvæma, ég upplifi meiri gleði, óttaleysi og er frjáls.
Það er það sem gerir edrúmennskuna svo góða og eftirsóknaverða, er að mér líður vel í eigin skinni, ég get tekist á við lífið eins og það kemur fyrir hverju sinni, án þess að hugsa út í það að þurfa drekka áfengi aftur. Fyrir Náð Guðs að þá stend ég ennþá þrátt fyrir marga storma í lífinu síðustu ár, og vona að svo verði áfram komandi ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)