Pæling út frá Matt.9:13

 

Matt 9:13

Farið og nemið, hvað þetta merkir: Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

 

Mat.13 Then he added, "Now go and learn the meaning of this Scripture: ‘I want you to show mercy, not offer sacrifices.'* For I have come to call not those who think they are righteous, but those who know they are sinners."

Það sem er vert að taka eftir í enska versinu sem er New Living Translation: Ég er ekki komin til að kalla þá sem telja sig vera réttláta heldur þá sem vita að þeir eru syndarar.

Þegar við lesum  í kringum þetta vers að þá sjáum við að Jesús var að heimsækja Matteus. Jesús vissi það nákvæmlega hvernig maður Matteus var. Matteus var að svindla á fólki og var mjög óheiðarlegur. En Jesús fór til hans og breytti honum. Þess vegna eigum við að vera óhrædd við það að fara til þeirra sem lifa í synd og segja þeim frá Jesús því að hann er enn að breyta lífum fólks í dag.

Þessi orð Jesú voru til Fariseana. Hann benti þeim að þeir sem væru heilbrigðir þyrftu ekki að leyta læknis enda væru sjúkrastofurnar fullar af sjúku fólki en ekki heilbrigðu.Þessir Farisear þóttust vera réttlátir og skilja það sem stóð í Ritningunum. En Jesús sagði farið og skoðið aftur hvað þetta þýðir því að þið skiljið þetta ekki. Jesús vitnar síðan í Hós 6:6..Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum. Jesús era ð benda þeim á það að Faðirinn hefur engan áhuga á helgisíðum þeirra heldur hjarta þeirra.  Jesús skorar á þá með þessum orðum að breyta eftir þessum orðum Ritningarinnar.  Eins og fram hefur komið þá kom Jesús ekki til að kalla þa sem þóttust vera réttlátir heldur þá sem voru þurfandi. Hann sá þá sem voru sjúkir og læknaði þá. Hann sá þá sem voru fjötraðir og leysti þá. Þannig á hugarfar okkar að vera. Við eigum ekki að réttlæta okkur sjálf eða þykjast vera betri en aðrir þegar við sjáum einstaklinga brjóta af sér eða mistök. Við eigum að fara til þeirra þeira sem sjúkir eru og biðja fyrir þeim að þeir verði heilir í Jesú nafni. Við eigum að fara til þeirra sem við vitum að eru rangir í verkum sínum og benda þeim á Jesús og að hann hefur lausn handa þeim. Þar höfum við það. Guð hefur engan áhuga á sjálfsréttlætingum manna. Hann vill sjá iðrandi hjarta. Allir menn eru jafnir frammi fyrir Guði, hvort sem þeir eru flokkaðir sem miklir syndarar eða réttlátir af mönnum. Vertu tilbúin að miskuna öðrum í stað þess að þykjast vera betri en aðrir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Pólitísk hugmyndafræði er oftast svo hástemmd yfirborðslega orðuð að engin leið er fyrir venjulega manneskju að átta sig á um hvað hún snýst. Orðskrúðugar stefnuskrár og fyrirheit láta hjá líða að fara í smáatriði um útfærslur og framkvæmd. Markmiðin eru jafn háleit og uppskrúfuð eins og leiðin að þeim óljós.  Í þessu óljósa gráa svæði, felast mistökin eða þá að þar eru meðölin falin. Kannski er þetta með vilja svona torskilið.  Kannski skilja hugmyndafræðingarnir viðfangsefnið sjálfir? Menn útbreiða jöfnuð og frið með ofbeldi og lama þjóðir, sem skilja ekkert í hvað verið er að tala um.  Hin raunverulega niðurstaða og ástand, sem skapast eftir að hugmyndafræðinni hefur verið troðið ofan í kokið á fólki er aldrei ljós þegar upp er lagt. Í orðskrúði sínu og hugsjónablindu, sést mönnum nefnilega yfir lykilatriðið.. Mannlegt eðli og breyskleika.
Trúarbrögðin eru ekki undanskilin þessu.  Þau eru á sama máta einnig orsök sundrungar, aðskilnaðar, fordóma og haturs en enginn skilur í raun hvað ber á milli.  Oft er því gripið til kynþátta, útlits og menningarmunar til að aðgreina hina "heiðnu" frá hinum "rétttrúuðu", því trúarsannfæringin sjálf sést oftast ekki utan á fólki.  Samfélög, sem hafa þróað sambúðarhætti sína í hnökralausu jafnvægi í árþúsundir eru kölluð villimannasamfélög af því að þau samræmast ekki vestrænni samfélagsmynd.  Óútskýrð nauðsyn verður á að kippa þessum barbörum inn í nútímann.  Allt snýst þetta þó um völd og yfiráð yfir efnalegum gæðum.  Hinir "réttlátu" forréttindahópar gegn hinum "ranglátu" heiðingjum.  Trúin hefur því oft að sama skapi skaðað mannkyn eins og pólitískar útópíur.  Hvort tveggja hefur orðið vopn í höndum valdsjúkra og breyskra manna.
Ég trúi því að Guð sé eitt.  Allsherjarafl sem býr í öllu.  Ekki bara því sem augað nemur og andann dregur, heldur öllu. Guð er í okkur og við í Guðinu.  Guð er ekki maður né yfirskilvitleg vera; ekkert áþreifanlegt fyrirbrigði, sem gera má sér mynd af.  Guð er sú orka sem býr í smæstu eindum alheimsins. Tifandi orka handan alls áþreifanleika.  Guð á sér því ekkert upphaf né endi;  hefur alltaf verið, er allt,  fyrir allt og í öllu.  Án Guðs væri ekkert. Það er mín trú.
Maðurinn hefur frá öndverðu hlutgert þettað afl,  gefið því nafn og gert af því myndir að manlegri fyrirmynd.(maðurinn skóp því Guð í sinni mynd en ekki öfugt) Menn hafa gefið honum stað og rýmd og sagt meira af honum hérna en þarna.  Síðan hafa menn tekið sér umboð almættisins, dæmt fyrir hönd þess og kúgað meðbræður sína í hégóma, græðgi og sjálfsupphafningu. 
Veldi byggðust utan um þetta með stórum stofnunum, musterum og skattheimtu; ritningar voru skrifaðar til réttlætingar yfirganginum í bland við hinn stóra sannleika.  Auðmýkt fyrir almættinu, var breytt í auðmýkt fyrir kúgunarvaldi manna.  Múr var  reistur á milli Guðs og almúgans og aðgangur seldur að náðinni fyrir fórnarfé.  Svo fáránlegt sem það er að setja tollhlið að einhverju, sem er allt um lykjandi.  Fólkið var kennt að lifa í ótta við hefnd og reiði vegna hugsna sinna og gjörða.  Það var þægt eins og lömb fyrir vellríkum og sjálfskipuðum umboðsmönnum Guðs, ef það vildi ekki hafa verra af.  Það merkilega er að Biblían varar við þessu öllu, en einhvernveginn hefur það ekki hentað málstað manna.  Hann gengur nefnilega í berhögg við orðið.
Ég held að Kristur hafi komið í heiminn til að breyta þessu.  Guð getur ekki gengið kaupum og sölum, né getur maðurinn tekið sér vald framar öðrum í nafni Guðs.  Hann fordæmdi prestastéttina fyrir hégóma sinn og skrautklæði og hét því að brjóta niður musteri þeirra og endurreisa musteri Guðs, sem mér skilst vera andlegt musteri því ekki á Guðið sér afmarkaðan stað.  Hann kom með nýjan sáttmála fyrirgefningar, umburðarlyndis, auðmýktar, jafnræðis og kærleika í stað refsingar, ótta, stéttskiptingar, haturs, hroka og bælingar.  Allir áttu jafnan rétt til Guðs án tillits til stéttar og þjóðernis.  Það lá í hlutarins eðli.   Nú skildu menn ekki gjalda auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, heldur bjóða hinn vangann og fyrirgefa óvinum sínum. Þetta eru erfið boð ef allir eru ekki á sömu blaðsíðu og hann vissi að það myndi kosta fórnir að koma þessum skilningi á.
Hann deildi á prestastéttina og kallaði þá réttilega hræsnara er þeir létu blása í lúðra til að láta vita er þeir gáfu ölmusur til fátækra; iðkuðu réttlæti sitt öðrum til sýndar og sér til upphefðar.  Þóttust nær Guði en aðrir.  Hver kannast ekki við slíkt úr samtímanum?   Kristur bað.þess í stað að menn gæfu í leynd, svo að hægri höndin vissi ekki hvað hin vinstri gjörði.  Að gefa sér til andlegs vaxtar og hljóta laun af himnum fyrir, sem þýddi að þeir sem gerðu gott, hlytu gott að launum.   Að stæra sig af góðverki er að benda á ræfildóm annara og upphefja sjálfan sig á kostnað þeirra. Bágt eigum við enn með að standast slíkt. Gott sækir gott heim og illt sækir illt heim.
Hann hvatti til þessarar nýju breytni m.a. með orðunum: "Það sem þú villt að aðrir menn gjöri yður, það skalt þú og þeim gjöra."  einnig: "Svo sem þú sáir, svo munt þú upp skera." Þetta gildir að sjálfsögðu líka um hið slæma sem við gerum; við fáum það aftur, sem við látum frá okkur.  Við skulum því ekki gjöra illt heldur elska náungann eins og okkur sjálf.  Það tel ég hann meina í þeirri vissu að við erum öll samtengd í einu afli.  Ef við gerum einum illt þá gerum við það öllum og líka okkur sjálfum. 
Hann uppáleggur okkur að dæma ekki aðra, því að með því erum við að leggja okkur undir sama dóm. Ef við höfum ekki umburðarlyndi fyrir mistökum annara, þá getum við ekki vænst umburðarlyndis af öðrum í okkar mistökum. Sama prinsipp. Við erum öll eitt og hið sama; hluti af Guði og sigurverki hans. Öll í sömu lauginni ef svo má segja, svo maður sýpur seiðið af því til jafns við aðra ef við kúkum í hana.
Bænasamkomur og opinbert bænahald virðist ekki vera samkvæmt hans fyrirmynd.  Hann segir að Guð heyri bæn þína áður en þú biður; heyrir ekkert betur ef þú ferð með skrúðmælgi og skjall. Kristur segir svo: "En þegar þú biður þá farðu inn í herbergi þitt, lokaðu að þér og biðjið..." Svo kennir hann okkur faðirvorið.  Engin fjöldasamkoma þar.  Bænin er því einkasamband okkar við Guð. Eintal sálarinnari við allt, sem er. Ögun hugans til nýrra verka. Samhæfing sjálfs og anda, svo sjálfið taki ekki af okkur völdin og girndirnar beri okkur ofurliði.  Oftast er það nefnilega svo að það sem freistar okkar mest, kemur okkur í mest vandræðin.
Við verðum því að efla andann því hann er sameiginlegt afl okkar allra. Halda egóinu í skefjum og taka ekkert heldur gefa til þess að fá gefið.  Þessu höfum við ekki enn náð tökum á. Við treystum ekki Guði og viljum hafa hönd í bagga. Kristur fullvissar okkur samt um að ef við trúum þá muni bænir vorar undantekningarlaust rætast. Amen þýðir: Svo skal verða.  Maður verður að hafa fullvissu í hjarta um að svo muni verða. Treysta því að jákvæð eftirvænting hlutgeri þarfir okkar og bænir. Við bítum í kinn, efumst og látum ekki einu sinni reyna á þetta.
Fólkið vissi ekki hvernig ætti að biðja, svo Kristur kennir faðirvorið svona sem dæmi.  Víst er að eitthvað hefur það verið lagað til og flúrað.  Skemmtileg hugleiðing um þetta er að fyrir utan bænina sjálfa, hefur verið bætt við einskonar skjalli síðar: þitt er ríkið mátturinn og dýrðin og allt það.  En það sem er eftirtektarverðast er það að við þúum Guð en þérum okkur sjálf í bæninni.  " Faðir vor þú sem ert á himnum...."Hvers vegna það er veit ég ekki, en mér finnst það einhvernveginn skondinn vitnisburður um sjálfhverfu mannsins.
En fyrst að Kristi var svona illa við kirkjur og presta, hvers vegna talar hann um sína kirkju? Svarið við því er að hann talar aldrei um kirkju.  Sá bókstafur í Testamentinu, sem kirkjan byggir helst á er: "Þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal." Hann segir ekki 25 eða 450 eða hópur, heldur segir hann tveir eða þrír. 
Hann vildi augljóslega afnema stofnanir og mannlega yfirboðara í Guðs nafni.  Hann sá fyrir sér að ef tveir eða þrír kæmu saman og ræddu boðun hans og kynntu boðskap kærleika og umburðalyndis, þá gæti einn úr þessum hópi fundið einn eða tvo aðra til að flytja þeim boðskapinn og ræða. Svona myndi það svo ganga koll af kolli með margfeldisáhrifum, þar til trúin yrði útbreidd um alla jörð.  Rétt eins og pýramídamarkaðsetning (network marketing) er uppbyggð.  Herbalife byggir t.d. á kynningum vöru og ágætis hennar auk sölu á henni án yfirbyggingar. Markaðsetningin er maður á mann, sem síðan fer og finnur annan mann.  Það tel ég hafa verið hugmynd Krists.  Þess vegna náði boðun hans líka svo hraðri útbreiðslu.
Hann grunaði þó sennilega að þessi hugmyndafræði myndi ræna aðalinn völdum og auði.  Slíkt yrði ekki gefið eftir þegjandi og hljóðalaust svo þess vegna yrði reynt að þagga niður í honum eða drepa hann. Fátt annað skýrir ofsóknir á hendur honum. Hann þekkti sitt heimafólk.  Hann lét þó ekki bugast þótt að honum sækti angist er að lokum leið. Hann var jú mannlegur. Maður sem skildi og sá hvernig alheimurinn var saman settur. Fyrir þetta hugrekki er hans minnst. Án þess hefði hann fallið í gleymsku.  Píslarvætti hans efldi aðeins hina kúguðu fylgjendur.
Kristur vissi væntanlega hvað hann var að gera. Vissi að það var hægt að byggja samfélög í kærleika og sætti án yfirþyrmandi leiðtoga. AA samtökin hafa engan leiðtoga t.d. og byggja á frjálsum framlögum og hjálp til sjálfshjálpar af þeim sem hafa náð sér frá bölinu.  AA byggir á þessum trúarlega grunni, kærleiks,  umburðarlyndis og óeigingirni og það gengur upp. Hin óeigingjarna eigingirni, eins og ég vil kalla það.
Ég fæ ekki séð annað en að hann hafi komið til að leggja að velli kirkjuna og endurreisa hið sanna veldi Guðs, veldi einingar, hjálpsemi og jöfnuðar. Við komum eins í heiminn og förum eins héðan, hví ættum við þá að byggja lífið á mismunun? Ómálga börn eru háð kærleika og hjálp þeirra, sem betur eru í stakk búnir.  Þau gefa í staðinn hlýju og kærleik og lífinu tilgang og ljós.  Bæn þeirra er heyrð án orðskrúðs.  Eru það ekki hin fullkomnu skipti?  Hið fullkomna hlutskipti?
En fyrst Kristur kom til að afnema kirkju og klerka, hvers vegna er vald hans í höndum þeirra nú?  Það er löng saga og flókin,  en í stuttu máli var hreyfing Kristinna svo öflug og hratt vaxandi í Rómarríki fyrir tilstilli þessarar grasrótarútbeiðslu að keisarinn sá ekki annað fært en að innlima trú þeirra og blanda henni við gömlu fjölgyðistrúna. 
Hann gerði trúna að valdastofnun sér til fulltyngis og nóg var af breyskum mönnum til að taka það að sér.  Meira að segja helgidagar Kristninnar eru þeir sömu og í Rómverskri heiðni.  Páfadómur umbreytti síðan fjölgoðafyrirbærinu í dýrlingafyrirkomulag, bætti heiðnu ritúali við eins og reykelsum, kertum og söng, svo umskiptin urðu saumlaus. Framhaldið þekkjum við. 
Hvers vegna er þá allt í þessum ólestri enn, þrátt fyrir allar þessar voldugu kirkjustofnanir?  Af hverju afsaka þær sig með að þetta sé ekki að marka enn, því að Kristur eigi eftir að koma aftur og setja smiðshöggið á verkið?  Eftir hverju er hann að bíða ef svo er?  Vill han láta mannkyn þjást svolítið lengur, svo við látum okkur þetta allt að kenningu verða?  Erum við ekki að gleyma þeirri staðreynd að einstaklingurinn verður ekki að meðaltali nema um 70 ára og að okkur er slétt sama um örlög fyrri kynslóða?  Það er eitthvað hérna, sem gengur í berhögg við fyrirheit hans.  Hann sagði okkur að hafa ekki áhyggjur, því með þeim bættum við ekki spönn við æfi okkar.  Hann sagði okkur að óttast ekki og treysta og trúa á hið góða afl, því í raun væri ekkert annað í boði en elskan ein.  Samt elur kirkjan á þessum ragnarrakaótta og fyllir sóknarbörn sín kvíða og skelfing fyrir dómsdegi.  Hvaða þvaður er þetta um um endurkomu Krists, sem klifað er á?  Eru umboðsmennirnir ekki í nógu sambandi til að fullna verk hans? Eru þeir kannski að gera eitthvað vitlaust?
Ég held að Kristur hafi aldrei farið í ákveðnum skilningi. Orð hans og máttur er með okkur alla daga og væri lífið æði undarlegt án kennisetninga hans. Honum renndi  þó trúlega í grun um að fyrirætlun hans yrði skrumskæld, sem raun varð á, enda þekkti hann mannlegt eðli og fordæmið hafði verið gefið oft og einarðlega til slíkrar ályktunar. Endurkoma hans er því mínum huga heit um viðreisn og uppfyllingu fyrirætlana hans um stofnanalaust trúboð. Maður á mann eins og í Herbalife hugmyndafræðinni; hinni rótlægu markaðsetningu. 
Við munum fyrr en síðar fara okkur að voða, því við létum ekki segjast og settum aftur á stofn, það sem hann kom til að uppræta.  Við látum óttann stjórna og grömsum til okkar lífsgæðum á kostnað samferðafólksins í valdi hans.  Við eigum eftir að ganga frá auðlindum jarðar og lífsviðurværum okkar og þegar ekkert er eftir lengu til að bítast um, þá verðum við sjálfkrafa neydd til að meðtaka boðskap hans um samvinnu, sáttfýsi, kærleika, jafnrétti, hjálpsemi, hófsemi, auðmýkt og trú á að allsherjaraflið muni vel fyrir sjá. Þá staðreynd að með því að gefa munum við öðlast og með því að taka munum við glata.  Hugmyndafræðin er pottþétt. Við eigum varla annan kost annan en að meðtaka hana.
Hvenær þetta verður er erfitt um að segja.  Horfur okkar til frambúðar hér á jörð eru ekki bjartar.  Mannfjölgun, auðlindaþurrð, mengun og stríð verður hlutskipti okkar vegna blindni, græðgi og tillitsleysi við samborgara og náttúru.  Fróðir segja 50...kannski 100 ár. Lengur getur eyðingaræðið ekki gengið. Allt á sér takmörk.

Þannig veltir "trúleysinginn" ég fyrir mér þessu orði.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 06:16

2 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

Varðandi endurkomuna að þá minnir mig að Biblían tali um hana 1035 sinnum eða oftar. Dyrnar á himnaríki er Jesús Kristur. Sá eða sú sem hefur tekið við honum sem frelsara sínum þarf ekki að hafa áhyggjur;) Ég virði þína hugmynd eða trú um Guð. En ég trúi því að Guð sé andi. Ég trúi því ekki að hann sé í öllum, heldur aðeins þeim sem hafa tekið við fyrirgefningu Jesú Krists. En varðandi tíma jarðarinnar þá er spáð því að friðartími muni koma. Síðan mun brjótast út 3 heimsstyrjöldin úr óvæntri átt. Ríku löndin munu skemmast eins og Evrópa, Ameríka og Japan oflr ríkar þjóðir. Síðan er spáð því að flóttinn frá sumum löndum mun snúast við. Hatrið sem var á innflytjendum mun snúast á þá sem flýja til fátæku landana. Það er að segja það er svo mikið af innflytjendum í dag að menn eru farnir að vera vondir við þá. Það er svindlað á þeim til þess eins að hagnast sem mest og farið ílla með þá í mörgum tilvikum. þetta mun koma yfir okkur. En ég gelymdi að nefna það að 3 heimsstyrjöldin mun enda með kjarnorkusprengju og þessi styrjöld mun vera verri en þær sem á undan gengu. Þá er átt við að fyrri heimsstyrjaldirnar voru bara djók hliðina á þessari. Þessi Heimsstyrjöld mun þó vera stutt en enda með ósköpum. Þ.e.a.s kjarnorkusprengju. Loftið verður mengað og ekki hægt að anda því að sér, jarðir munu skemmast og ekki lengur hægt að rækta þér. Satt að segja bendir allt til þess að stutt sé í endurkomu Krists

Sigvarður Hans Ísleifsson, 17.11.2007 kl. 12:50

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæll Sigvarði - lestu með opnum huga innlegg Jóns Steinars og þegar þú hefur lesið það einu sinni, lestu það þá aftur. Og eigðu svo góðan og gæfuríkan dag.

Pálmi Gunnarsson, 17.11.2007 kl. 13:36

4 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

Sigvarður heiti ég ekki Sigvarði... En ég las þetta með opnum hug en er ekki sammála enda á hver maður að hafa sinn rétt til að trúa því sem hann vill;) og síðan uppskera á eftir því:)

Sigvarður Hans Ísleifsson, 17.11.2007 kl. 16:58

5 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég biðst innilega afskökunar á að nefan þig ekki réttu nafni Sigvarður, en eins og öðrum dauðlegum mönnum verða mér á mistök. Varðandi tillögum mína um að lesa hugleiðingu Jóns Steinars þá er ég ekki með því að reyna að snúa þér til eða frá einu eða neinu,  þetta er bara svo fjandi fín lesning hjá honum Jóni Steinari. Og eigðu áfram góðan dag.

Pálmi Gunnarsson, 17.11.2007 kl. 17:16

6 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

Minnsta málið:) þér er allveg fyrirgefið.. En það er satt hjá þér þetta er mjög vel skrifað hjá honum. Því er ekki hægt að neita. Ég myndi nú bara hvetja hann til að setja þetta á bloggið sitt:D

Sigvarður Hans Ísleifsson, 17.11.2007 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband