Smá fróðleikur um opinberunarbókina
10.10.2009 | 18:24
Opinberunarbókin, boðskapur fyrir þátíð og nútíð.
Fyrir söfnuðina í Litlu Asíu innihélt Opinberunarbókin boðskap uppörfunar og hvatningar. Bréfin sjö opinbera að sumir trúaðir umbáru villukenningar og voru orðnir kærulausir og skeytingarlausir um andlega hluti (Opinb. 2:4,14-16,20; 3:1-3,15-1. Kristur hvatti þessa kristnu einstaklinga til að bregðast við ögun hans og helga sig honum að nýju. Bréfin sýna líka að sumir trúaðir upplifðu miklar ofsóknir (2:3, 9, 13). Spádómar bókarinnar hvöttu þá með því að sýna þeim að Guð mundi dag einn refsa hinum vondu og launa þeim trúföstu. Sérstök tákn í Opinberunarbókinni voru líklega þekkt af þessum trúuðu einstaklingum og vísuðu til kunnuglegra atburða og einstaklinga. Það er til dæmis líklegt að þeir hafi séð í dýrinu í kafla 13 mynd af rómverska ríkinu, sem var að ofsækja þá. Þeir komust að því að Guð vissi um bænir þeirra og þjáningar (6:9-11;8:4; 14:13). Þeir komust að því að píslavottarnir mundu ríkja með Kristi (20:4), og að Guð sjálfur mundi þurrka burt hvert tár (21:3-4). Í gegnum spádóminn fengu þeir að vita að þeir urðu að vera þolinmóðir og trúfastir, því að Guð mundi refsa dýrinu (Opinb. 13:10; 20:10).
Opinberunarbókin hefur líka boðskap til okkar, vegna þess að hún var ætluð allri kirkjunni. Við ættum að taka á móti og bregðast af öllu hjarta við viðvörunarorðunum, hvatningunni og uppörfuninni. Það geta komið þeir tímar þegar við, eins og Efesusmenn, þurfum að iðrast og endurnýja samband okkar við Krist (Opinb. 2:4-6). Það geta líka komið þeir tímar þegar við þurfum að þola þrengingar og fátækt eins og hinir trúuðu í Smyrnu (2:8-11). Þegar þannig stendur á geta loforðin í Opinberunarbókinni huggað okkur, því þau gefa mynd af eilífðar heimili okkar og fullvissa okkur um að dag einn mun Guð þerra hvert tár (21:3-4; 22:3-5).
Spádómar Opinberunarbókarinnar eru líka mikilvægir fyrir okkur. Það er satt að sumir þeirra spáðu fyrir um atburði sem áttu sér stað fljótlega eftir að þeir voru skrifaðir. En það lítur út fyrir að þessir sömu spádómar eigi líka við um atburði, sem munu eiga sér stað við endi veraldar.
Þeir eru eins og aðrir biblíulegir spádómar sem rætast tvisvar. Til dæmis lesum við í 1. Mósebók 46:4 og 50:24 að afkomendur Jakobs munu dag einn koma frá Egyptalandi. Þetta gerðist þegar Móses leiddi þá út (2. Móseb.12:31-42). Löngu seinna, rættist þessi spádómur aftur þegar annar afkomandi Jakobs, Jesús Kristur, kom líka frá Egyptalandi (Hósea 11:1; Matt. 2:15).
Á líkan hátt eru sumir spádómar Opinberunarbókarinnar tvöfaldir. Margir biblíufræðingar trúa til dæmis að spádómurinn um dýrið í kafla 13 bendi á tvennt: 1) Rómversku stjórnina, sem var á þeim tíma sem Jóhannes skrifaði og 2) heimsveldið, sem mun stjórna á tímabilinu fyrir endurkomu Krists. Þessi spádómur inniheldur viðvörun til okkar. Eins og þeir í frumkristninni, verðum við að vera varkár og bindast ekki neinu afli sem krefst tilbeiðslu, sem tilheyrir Guði einum (Opinb. 13:5-8; 15:2). Aðrir spádómar í Opinberunarbókinni, eins og í köflum 20-22 rætast aðeins einu sinni, því þeir fjalla um eilífðina og endalok heimsins.
Það ætti ekki að koma okkur á óvart að oft er erfitt að skilja spádómana í Opinberunarbókinni. Við getum samt sem áður reiknað með að þýðing þeirra verði ljós þegar tíminn nálgast að þeir rætist, eins og hefur verið með aðra spádóma í Biblíunni. En kynning bókarinnar á sigursælum Kristi, viðvaranir við fráhvarfi, hvatning til helgunar, og kall til samfélags geta allir kristnir einstaklingar skilið, hvenær sem er og hvar sem þeir búa.
Með Opinberunarbókinni lýkur Nýja testamentinu - og allri Biblíunni - tónninn er sigur og viðvörun. Það gefur okkur lifandi mynd af sigri frelsara okkar og skráir síðustu orðin sem Jóhannes heyrði hann segja til okkar: Já, ég kem skjótt (Opinb. 22:20). Tökum mark á boðskap hennar og undirbúum okkur fyrir atburðina, sem hún spáir fyrir um, þjónum Kristi af öllum mætti og boðum fagnaðarerindi hans í öllum heimshornum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.